Sjálfbærniskýrsla
2019

Reginn

Reginn lítur á sig sem brautryðjanda og framsækið fasteignafélag sem er eftirsóknarverður samstarfsaðili og vinnuveitandi. Félagið einsetur sér að vera leiðandi í mótun og rekstri fasteigna auk þess að stuðla að velferð samfélags, bættum lífsgæðum og umhverfi íbúa. Rekstur og skipulag fasteigna hefur umtalsverð áhrif á umhverfi og lífsgæði íbúa en tugir þúsunda manna dvelja daglega í fasteignum Regins, ýmist við leik eða störf. Með markvissum aðgerðum í rekstri fasteigna, fjárfestingum, skipulagi, nýbyggingum og með samvinnu við leigutaka getur Reginn átt ríkan þátt í móta umhverfi fólks þannig að daglegt líf verði betra, ánægjulegra og öruggara.

Á árinu 2019 setti Reginn sér sjálfbærnistefnu sem tekur á umhverfislegri, félagslegri og efnahagslegri sjálfbærni. Með stöðugar úrbætur að leiðarljósi hefur félagið sett sér markmið á því sviði. Árangur í sjálfbærni verður mældur með markvissum hætti og starfsmenn, viðskiptavinir og fjárfestar upplýstir um markmiðin og þann árangur sem næst. Í fjárfestingum og rekstri fasteigna er horft til langs tíma. Það er trú félagsins að áhersla á sjálfbærni dragi úr áhættu í rekstri félagsins og styrki fjárhagslega arðsemi til lengri tíma litið.

Lögð er áhersla á að samþætta Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við rekstur félagsins. Félagið leggur megináherslu á sex markmið sem daglegur rekstur hefur mest áhrif á: heilsu og vellíðan, framleiðslu og aðgerðir í loftlagsmálum, jafnrétti kynjanna, sjálfbærar borgir og samfélög, sjálfbæra orku og ábyrga neyslu.

Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir helstu þáttum umhverfislegrar, félagslegrar og efnahagslegrar sjálfbærni. Orkunotkun, sorp og vatnsnotkun er tilgreind frá sex fasteignum sem Reginn sér um rekstur í. Þessar fasteignir eru Smáralind, Egilshöll, Höfðatorg, Áslandsskóli og leikskólarnir Tjarnarvellir og Hörðuvellir. Í öðrum eignum sér félagið ekki um daglegan rekstur heldur er hann í höndum leigutaka. Samtals telja þessar eignir 33,5% af heildarfermetrum í eignasafni félagsins. Teknar hafa verið saman upplýsingar fyrir árið 2019 fyrir þessar eignir og eru þær birtar hér. Aðrar félags- og stjórnháttalegar upplýsingar eiga við um samstæðuna í heild. Sjá nánar í tilvísunartöflu.

Umhverfisleg sjálfbærni

Reginn hefur á undanförnum árum lagt aukna áherslu á umhverfismál og sjálfbærni í sínum rekstri. Hefur félagið farið í ýmsar aðgerðir og verkefni með það að markmiði að minnka neikvæð umhverfisáhrif og auka umhverfisvitund. Félagið tók á árinu sín fyrstu skref í átt að umhverfisvottun fasteigna, þar sem fylgt er alþjóðlegum kröfum um umhverfisþætti, áhættustýringu og rekstur. Þá vill félagið leggja sitt af mörkum, styðja viðskiptavini í grænni vegferð með því að bjóða upp á græna leigusamninga og hefur verið lagður grunnur að þeirri vinnu.

Til að stuðla að umhverfislegri sjálfbærni hefur félagið sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri og við framkvæmdir. Þá skal nýta náttúruauðlindir með ábyrgum hætti og leita leiða til að draga úr notkun þeirra ásamt því að hámarka hlutfall endurnýjanlegar orku. Lágmarka skal notkun á vörum sem eru skaðlegar umhverfinu og áhersla lögð á að draga úr magni sorps og auka flokkun þess.

Aðgerðir í umhverfismálum

Gerðar hafa verið ítarlegar greiningar á þeim þáttum sem hafa hvað mest umhverfisáhrif í rekstri eigna félagsins. Með það að markmiði að minnka neikvæð umverfisáhrif hefur verið farið í ýmsar aðgerðir til að minnka orkunotkun, ljósastýring, orkuvöktun gerð markvissari og keyptir rafknúnir bílar. Þá hefur aukin áhersla verið lögð á sorpflokkun, innkaup umhverfisvottaðra ræstivara og endurnýtingu byggingarefnis.

Samhliða mörgum smærri verkefnum lagði félagið í þrjú stór verkefni á árinu, BREEAM In-Use vistvottun á Smáralind, C40 samkeppni um skipulag og hönnun byggingar með loftlagsmál að leiðarljósi og þróun og innleiðingu á snjallsorpi. Þátttaka Regins í þessum verkefnum var ekki einungis viðskiptalegs eðlis heldur tilgangurinn einnig að afla félaginu reynslu og þekkingar í uppbyggingu og rekstri umhverfisvænna bygginga.

BREEAM - alþjóðleg umhverfisvottun

Sem þáttur í heildrænni stefnu Regins í umhverfismálum hlaut Smáralind í lok desember 2019, fyrst íslenskra bygginga, BREEAM In-Use vistvottun með einkunnina „very good“. BREEAM vistvottunarkerfi er alþjóðlegur staðall og vottunarkerfi fyrir byggingar á rekstrartíma þeirra. Vottunin, sem gefin er út af óháðum aðila, veitir yfirsýn yfir frammistöðu Smáralindar í bæði umhverfismálum og sjálfbærni ásamt því að gefa betri sýn á hvar tækifæri liggja til umbóta. Umhverfisvottun fasteigna er hluti af sjálfbærnimarkmiðum Regins og stefnir félagið á að helmingur eignasafns Regins verði með umhverfisvottun árið 2025.  

C40

Um mitt ár 2018 hófst undirbúningsvinna fyrir þátttöku Regins í samkeppni á vegum Reykjavíkurborgar og borgarsamtakanna C40. Samtökin C40 hafa það að markmiði að vera leiðandi í aðgerðum í loftlagsmálum og gekk samkeppnin út á að skipuleggja og hanna byggingar með það að leiðarljósi. Reginn, Basalt arkitektar og Efla unnu að og lögðu inn tillögur fyrir tvær mismunandi lóðir. Reyndist tillaga þeirra, fyrir uppbyggingu á lóð við Lágmúla, vinningstillaga þeirrar samkeppni. Tillagan er grunnur að samningum um kaup Regins á lóðinni og samvinnu við Reykjavíkurborg að uppbyggingu hennar þar sem félagið verður eigandi verkefnisins og hússins. 

Snjallsorp

Haustið 2019 var sorpflokkunarstöð búin snjallbúnaði tekin í gagnið á Hafnartorgi en vinna að þessari lausn hófst á sumarmánuðum 2018. Snjallsorpið skráir magn og sorpflokka niður á leigutaka og gerir með því hvern leigutaka ábyrgan fyrir sinni flokkun og þeim kostnaði sem hlýst af því sorpi sem til fellur. Notendur fá einnig upplýsingar um eigin árangur í sorpflokkun og þróun milli mánaða sem er jafnframt þáttur í að hvetja og styðja viðskiptavini í sinni grænu vegferð. Stefnt er að frekari þróun og innleiðingu snjallsorps í fleiri eignum félagsins. 

Rafbílahleðslur

Unnið var að fjölgun rafbílahleðslna við stærstu eignir félagsins og í lok árs voru stöðvarnar 16 við Smáralind, 6 við Egilshöll og 20 við Höfðatorg. Stefnt er að enn frekari fjölgun rafhleðslustöðva á næstu árum við eignir Regins. 

Hjólagrindur

Hjólagrindum var skipt út og fjölgað í Smáralind og gæði þeirra aukin. Alls eru nú stæði fyrir 60 hjól í Smáralind og er næsta verkefni að fjölga þeim við Egilshöll og Höfðatorg.

Ný hússtjórnarkerfi

Hússtjórnarkerfi hafa verið endurnýjuð og yfirfarin í Smáralind og Egilshöll. Með því fæst betri stýring á helstu kerfum húsanna s.s. loftræsingu, gólfhitakerfi, lýsingu, neysluvatnskerfi, reykútsogi og snjóbræðslu. Samhliða var ljósastýringarkerfi bætt til muna í báðum húsum. Endurnýjun þessara kerfa eykur bæði orkusparnað og vinnuhagræðingu.

Sorpflokkun í Smáralind

Sorpflokkun í Smáralind var aukin til muna og er nú flokkað í 9 flokka í stað 5 flokka áður; almennt sorp, pappír og pappa, bylgjupappa, plastumbúðir, umbúðaplast, lífrænan úrgang, flöskur og dósir, málma og vörubretti. Markvisst verður unnið að því á árinu 2020 að virkja leigutaka enn frekar og auka flokkunarhlutfall í húsinu. 

Umhverfisstjórnunarkerfi

Reginn notast við EnviroMaster hugbúnaðalausn frá Klöppum til að halda utan um upplýsingar varðandi rafmagns- og vatnsnotkun, sorp og eldsneytisnotkun þeim eignum sem félagið sér um rekstur í. Árið 2019 nýtti Reginn sér viðbótarþjónustu Klappa sem gerir kleift að taka út umhverfisskýrslur ársfjórðungslega. Auðveldar það félaginu að vakta umhverfislega mikilvæga þætti, fylgja markmiðum eftir og upplýsa stjórnendur og fjárfesta um framvindu.

Losun gróðurhúsalofttegunda

Losun gróðurhúsalofttegunda kemur frá ýmsum þáttum í rekstrinum. Árið 2018 setti félagið sér það markmið að minnka losun CO2 um 5% fyrir lok árs 2019. Raun losun 2019 var samtals 673 tCO2e sem er minnkun um 3% frá fyrra ári. Sé hins vegar horft á beina losun vegna reksturs húsnæðis, bifreiða í eigu félagsins og vegna framleiðslu á orku sem eignir í rekstri nota, umfang 1 og 2, var losunin 454 tCO2e.  Losun á fermeter vegna umfangs 1 og 2 var því 3,6 kgCO2/m2 árið 2019. Jafngildir það 6% minnkun milli ára. 

Orkunotkun

Orkunotkun er mjög mismunandi eftir eðli þeirrar starfsemi sem er í viðkomandi húsnæði. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna orkuframleiðslu er mest í rekstri fyrirtækisins. Þessi orkunotkun er öll notkun á heitu vatni, bæði til upphitunar og heitu neysluvatni sem og öll raforka sem viðkomandi eignir Regins nota. Einnig er hluti af heildarorkunotkuninni öll notkun eldsneytis á farartæki í eigu Regins.

Líkt og fram kemur hér að ofan er orkunotkun vöktuð og frávik í orkunotkun félagsins greind. Auknar upplýsingar um notkun gera félaginu kleift að grípa fyrr inn í ef um frávik er að ræða, veita betri innsýn í orkufrekustu þætti starfseminnar og varpa ljósi á hvar aðgerða er þörf.

Raforka

Uppruni þeirrar raforku sem Reginn kaupir fyrir eignir í rekstri er 99,6% frá endurnýjanlegum orkugjöfum eins og jarðvarma og vatnsafli. Árið 2018 setti félagið sér það markmið að minnka raforkunotkun eigna í rekstri um 5% fyrir lok árs 2025 en raun minnkun 2019 reyndist 6%.

Vatnsorka

Vatnsnotkun er þáttur sem Reginn leitast við að stjórna eftir bestu getu með vöktun og viðbrögðum við frávikum. Minni notkun þýðir minni kostnaður og minna álag á innviði sem vatnsnotkunin byggir á. Kalt vatn er helst notað sem neysluvatn og til kælingar í hús- og tölvukerfum en heitt vatn er notað í upphitun, sem neysluvatn og í snjóbræðslu. Árið 2018 setti félagið sér það markmið að minnka vatnsnotkun eigna í rekstri, kalt vatn um 2% og heitt vatn um 5% fyrir lok árs 2025. Raun minnkun 2019 reyndist 6% í köldu vatni og 10% í heitu vatni.

 

 

 

Sorpflokkun

Markmið Regins í sorpflokkun felast bæði í aukinni sorpflokkun þar sem hlutfall almenns sorps fer minnkandi og að draga úr heildarmagni sorps sem til fellur frá eignum félagsins en stærsti hluti þess sorps sem fellur til er á vegum leigutaka. Félagið mun beita sér fyrir því að auka vitund leigutaka á mikilvægi flokkunar og þeim efnahagslega og umhverfislega ávinningi sem hlýst af aukinni sorpflokkun.

Félagsleg sjálfbærni

Með félagslega sjálfbærni að leiðarljósi skal tryggja vellíðan fólks og öruggt og heilbrigt umhverfi. Á það jafnt við innanhúss og umhverfis fasteignir félagsins, í þágu starfsfólks, leigutaka og gesta þeirra. Hjá Regin er áhersla lögð á græn sjónarmið í skipulagsmálum og byggingum og þar með aukin lífsgæði þeirra sem þar fara um. Samfélagslegir þættir verða einnig hafðir í huga við skipulag og hugað að vettvangi til aukinna samskipta.

Á árinu 2019 var farið í ýmsar aðgerðir til að tryggja vellíðan og efla starfsánægju fólks. Gerð var könnun meðal starfsmanna þar sem ýmsir þættir starfsánægju, viðhorfs og líðan voru skoðaðir. Þá hafa verið haldnir upplýsingafundir með starfsmönnum og skipulögð námskeið með það að markmiði að auka þekkingu. Einnig var gerð þjónustukönnun meðal viðskiptavina og niðurstöður þeirrar könnunar nýttar til að efla samstarf og samskipti við viðskiptavini.

Mannréttindi

Mannréttindi eru ein af grundvallarstoðum samfélagsins og fylgir Reginn mikilvægum grunngildum er varða mannréttindi í allri sinni starfsemi. Tryggja skal jöfn tækifæri og laun án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.

Starfsumhverfi

Félagið hefur sett sér starfskjarastefnu sem felur í sér það yfirlýsta markmið að laða til sín hæfustu einstaklinga á hverjum tíma og greiða þeim samkeppnishæf laun. Er þar horft til ábyrgðar, árangurs og gætt að jafnréttissjónarmiðum. Í starfs- og siðareglum félagsins er mælt fyrir um að starfsmenn skuli koma fram af fagmennsku og heiðarleika. Virðing, sanngirni, kurteisi og sæmd skulu einkenna öll samskipti við viðskiptavini, samstarfsmenn og aðra sem stofnað er til viðskiptasambands við. Starfræktar eru nefndir á vinnustaðnum sem ætlað er að fyrirbyggja og taka á málum sem tengjast kynferðislegri áreitni, ofbeldi og einelti. Hjá félaginu gildir félagafrelsi starfsmanna.

Velferð og heilsa

Reginn leggur mikið upp úr velferð og heilsueflingu starfsmanna þar sem stuðlað er að bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Félagið veitir heilsustyrki árlega, innan þess er virkt starfsmannafélag og sumarhús leigt út til starfsmanna og fjölskyldna þeirra. Reginn styður við heilsueflingu starfsmanna með heilsustyrk og jákvæðu viðhorfi til heilsueflingar og heilbrigðs lífernis. 88,1% starfsmanna nýttu sér heilsustyrkinn 2019. Félagið veitir einnig orlofsstyrk sem var nýttur af 64,4% starfsmanna árið 2019. Starfandi er íþróttanefnd sem skipuleggur ýmsa heilsueflandi viðburði, svo sem líkamsrækt, hjólaferðir, fjallgöngur og golf. 

Árið 2019 voru veikindadagar 4,97 að meðaltali á starfsmann og tvö slysatilfelli. Við vinnu er áhætta takmörkuð eftir fremsta megni og menn klæðast vinnuverndarbúnaði. Ef um vinnuslys er að ræða eru þau tilkynnt til vinnueftirlitsins. Hvert slys er metið fyrir sig og kappkostað að fyrirbyggja sambærileg slys með bættum búnaði eða aðbúnaði, eftir því sem við á. 

 

 

Jafnlaunaúttekt

Reginn fór í gegnum jafnlaunaúttekt árið 2018 og er unnið að jafnlaunavottun sem gert er ráð fyrir að ljúka 2020. Niðurstaða jafnlaunaúttektarinnar sýndi að grunnlaun karla árið 2018 voru 1,6% hærri en grunnlaun kvenna. Þegar skoðuð voru heildarlaun var munurinn hins vegar 1,7%. 

Kynjaskipting

Árið 2019 var kynjaskipting starfsmanna 36% konur og 64% karlar. Reginn hefur lagt áherslu á jöfnun kynjahlutfalla í stjórnunarstöðum og var það hlutfall 56% karlar, 44% konur árið 2019. Kynjahlutfall í stjórn Regins 2019 var 60% konur, 40% karlar. Varamenn eru tveir, einn karl og ein kona. 

Starfs- og siðareglur

Í sjálfbærnistefnu félagsins er áréttað að hvers kyns spilling, mútur af einhverju tagi eða önnur ólögleg starfsemi sé ekki liðin undir neinum kringumstæðum. Félagið framfylgir góðu viðskiptasiðferði á gagnsæjan hátt og í samræmi við verklagsreglur og takmarkar þannig áhættu af spillingu, mútum og annarri ólöglegri starfsemi. Starfsmenn og stjórnendur skulu aldrei láta einkahagsmuni stangast á við hagsmuni félagsins eða viðskiptavina þess. Í samræmi við sjálfbærnistefnu félagsins skulu allir birgjar og samstarfsaðilar félagsins kynna sér siðareglur Regins, staðfesta þær og framfylgja þeim. Félagið leitast þar af leiðandi við að velja birgja sem sýna samfélagslega ábyrgð og hafa gott viðskiptasiðferði að leiðarljósi.

Starfs- og siðareglur Regins gilda um alla starfsemi, alla starfsmenn og stjórnendur samstæðunnar. Við ráðningu staðfesta starfsmenn að þeir hafi lesið, skilið og muni starfa eftir reglunum. Markmið þeirra er að mæla fyrir um almennar skyldur starfsmanna til þess að stuðla að heiðarleika, réttsýni og sanngirni í viðskiptum og efla traust viðskiptavina og almennings á félaginu. Reglurnar endurspegla mikilvæg gildi á borð við áreiðanleika, sanngirni og jafnræði sem grundvallast á því að starfsmenn félagsins skulu koma fram af heiðarleika og trúnaði og eru bundnir þagnarskyldu lögum samkvæmt um hvaðeina sem þeir kunna að verða áskynja í starfi sínu varðandi viðskiptavini og um starfsemi félagsins.

Reginn varðveitir persónuupplýsingar á öruggan hátt í samræmi við gildandi lög og reglur um persónuvernd. Reginn hefur sett sér persónuverndarstefnu  og öryggisstefnu til að tryggja öryggi persónuupplýsinga.

Efnahagsleg sjálfbærni

Efnahagsleg sjálfbærni er þriðji grunnþátturinn í sjálfbærnistefnu Regins. Sá þáttur er ekki síður mikilvægur en umhverfis- og félagsleg sjálfbærni þegar kemur að farsælum rekstri félagsins til langs tíma.

Markmiðið er að tryggja sjálfbært sjóðsstreymi félagsins og lágmarka áhættu í rekstri með áherslu á stöðuga þróun eignasafnsins. Nýta skal fjármagn og mannauð félagsins með sem hagkvæmustum hætti auk þess sem verklag innan félagsins einkennist af góðu viðskiptasiðferði, heilbrigðum viðskiptaháttum og ábyrgð. Þessar áherslur treysta fjárhagslegan styrk Regins til lengri tíma, auka arðsemi og styðja við langtímavöxt.

Efnahagslegir lykilmælikvarðar

Reginn hefur skilgreint þrjá lykilmælikvarða efnahagslegrar sjálfbærni í áhættustefnu félagsins og að neðan má sjá þróun þeirra undanfarin 4 ár.

Tilvísunartafla